Innlent

Stefán áfram á sjúkrahúsi

Stefán Gunnarsson, friðargæsluliði í Afganistan, fékk sprengjubrot í fót og neðri hluta líkamans við sjálfsmorðsárásina í Kabúl í Afganistan á laugardag. Arnór Sigurjónsson, skrifstofustjóri Íslensku friðargæslunnar, segir Stefán verða áfram á sjúkrahúsi. Ellefu ára afgönsk stúlka og 23 ára bandarísk kona létust í sjálfsmorðsárásinni. Aðspurður um hvort Stefán nái sér að fullu segir Arnór það verða að koma í ljós, en gert sé ráð fyrir því. Arnór segir enga ákvörðun hafa verið tekna um að Íslendingarnir verði sendir heim en hugsanlegt sé þó að Stefán komi fyrr en áætlað var. Steinar Örn Magnússon hefur verið settur í gifs að sögn Arnórs. Hann var ásamt Sverri Hauki Grönli á spítalanum fyrstu nóttina eftir árásina. "Ég held að það sem hafi ráðið því að árásin var gerð hafi verið að þeir voru á merktum bílum frá Friðargæslunni. Árásin var á friðargæsluna, ekki á Íslendingana sérstaklega," segir Arnór. Hann segir misskilning hjá erlendum fréttastofum að Íslendingarnir séu hermenn. Það sé krafa Atlantshafsbandalagsins að allir sem starfi við friðargæslu séu einkennisklæddir og þess vegna sé hugsanlegt að erlendu fréttastofurnar telji þá vera hermenn. Arnór segir Íslendingana verða að hlíta ákvæðum bandalagsins en þeir séu borgaralegir sérfræðingar sem sjái um rekstur flugvallarins. Aðspurður um hvort Íslendingunum stafi ekki meiri ógn af því að vera klæddir eins og hermenn svarar Arnór því neitandi og segir það þvert á móti. "Það hefur verið óvenju rólegt þarna undanfarnar vikur. Von var á óróa og átökum í kringum kosningarnar en svo varð ekki. Árásin var óvænt og ég held að hún sé ekki túlkuð sem byrjun á óstöðugra ástandi," segir Arnór.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×