Innlent

Afneitun mæðra algeng

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir almennt að þegar brotið er kynferðislega gegn börnum geti það oft valdið svo miklum sársauka hjá mæðrum barnanna að þær bregðist við með afneitun. Slíkt segir hann geta komið illa út gagnvart barninu sem sé skelfilegt en jafnframt segir hann að hægt sé að vinna með slíka hluti. Bragi segir það hlutverk barnaverndaryfirvalda, um leið og rökstuddur grunur um kynferðisofbeldi á heimili vaknar, að tryggja öryggi barna á heimilinu. Grannt sé fylgst með börnunum þar til að afplánun kemur og í sumum tilfellum jafnvel farið fram á afbrotamaðurinn sé ekki undir sama þaki og börnin. Eftir dóm segir Bragi alla viðleitni til að vernda börn inni á heimilinu verða markvissari og auðveldari en það sé ávallt reynt að gera í góðri samvinnu við foreldrið sem ekki hefur gerst brotlegt. Bragi segir mikilvægt að nálgast slík mál af varfærni og hjálpa viðkomandi foreldri að vinna á málinu og gera því grein fyrir skyldunni gagnvart barninu og öðrum börnum sem kunna að vera í hættu. "Aðskilnaður við móður getur verið mjög skaðlegur og getur aukið enn á áfallið. Það þarf að hjálpa allri fjölskyldunni við svona aðstæður."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×