Sport

Keflavík veikt á vítalínunni

Íslandsmeistarar Keflavíkur eru á góðri siglingu í úrvalsdeildinni í körfuknattleik og trjóna á toppi deildarinnar. Þrátt fyrir að vera í kunnuglegri stöðu í deildinni hefur vítanýting liðsins verið afleit það sem af er ári og var liðið nýverið á botni deildarinnar í vítanýtingu. Í Keflavík er hefð fyrir góðri vítahittni eins og öðru og því þykir sæta tíðindum að liðinu gangi illa á þessu sviði leiksins. Fréttablaðið ræddi við Sigurð Ingimundarson, þjálfara liðsins og spurði hann meðal annars hvort eitthvað væri til í því að gamla kempan Guðjón Skúlason væri farinn að mæta á æfingar hjá liðinu til að segja leikmönnum til í vítaskotunum, því Guðjón var eins og kunnugt er afbragðs vítaskytta á ferli sínum með liðinu. "Miðað við venju erum við ekki að hitta vel, nei. Það er alveg rétt og ég tel að það hafi háð okkur nokkuð að við höfum ekki getað æft einstaka atriði eins og þetta nægjanlega vel sökum leikjaálagsins sem verið hefur á liðinu í vetur. Það er nokkuð athyglisvert að þeir sem hafa verið að fá flestu vítin hjá okkur hafa verið að hitta frekar illa. Við missum hins vegar ekkert svefn yfir þessu og stefnum hærra og ég get lofað því að liðið verður komið upp á meðal þeirra bestu þegar deildarkeppnin klárast", sagði Sigurður. Keflavíkurliðið er aðeins með um 66% vítanýtingu það sem af er tímabils og segir Sigurður að liðið hafi einmitt verið að fara vel ofan í saumana á þessu vandamáli undanfarið og að það hafi skilað sér í síðasta leik þegar liðið hitti ágætlega. Þegar litið er á einstaka leikmenn í liðinu má sjá að sá leikmaður sem hefur hitt best úr vítum sínum í vetur af þeim sem leika hvað mest, er Magnús Gunnarsson með um 85% nýtingu. Athygli vekur að Jón Nordal Hafsteinsson er með aðeins tæplega 17% vítanýtingu, en þessi frábæri leikmaður er með bestu nýtingu allra í deildinni í skotum utan af velli svo að afleit vítanýting hans er í meira lagi undarleg. Jón hefur aðeins hitt úr þremur af átján vítaskotum sínum í deildinni í vetur og þó að hann fari kannski sjaldan í vítalínuna, verður þetta að teljast ansi slök hittni af landsliðsmanni að vera. "Ég hef engar áhyggjur af Jóni, þetta kemur allt saman hjá honum og hann verður að hitta vel það sem eftir er tímabils og í úrslitakeppninni eins og aðrir í liðinu", sagði Sigurður þegar hann var spurður út í vandræði Jóns og félaga hans á vítalínunni. Við spurðum Jón sjálfan hvernig stæði á þessu og hann hafði fá svör við draugnum sem eltir hann á vítalínuna. "Þau bara eru ekki að detta núna. Ég hef svo sem aldrei verið nein frábær vítaskytta, en þetta er auðvitað ekki nógu gott", sagði Jón. Hann kvaðst þó sammála þjálfara sínum um að nýtingin lagaðist með vorinu, því liðið hafi verið duglegt að æfa þetta atriði undanfarið og lofaði að stór bæting yrði á í næstu leikjum. Það verður áhugavert að fylgjast með því hvort Keflvíkingar standa við stóru orðin og verða farnir að hitta með þeim bestu í vor.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×