Lífið

Björgólfur á meðal ríkustu manna

Björgólfur Thor Björgólfsson er fyrsti Íslendingurinn til að komast á lista Forbes-tímaritsins yfir auðugustu menn veraldar. Tímaritinu var dreift í verslanir vestanhafs í gærkvöldi. Bill Gates, stofnandi Microsoft, er sem fyrr í efsta sætinu, ellefta árið í röð, en eigur hans eru metnar á rúmlega 46 milljarða dollara. Björgólfur Thor er í 488. sæti á listanum og skýst því upp fyrir fólk eins og sjónvarpskonuna Opruh Winfrey, Mörthu Stewart og Disney-erfingjann Roy Disney. Blaðið metur eignir Björgólfs á 1,4 milljarða Bandaríkjadala, eða um 84 milljarða króna. Þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingur kemst á þennan lista en aldrei hafa fleiri ný nöfn verið á listanum en nú. Í viðtali og umfjöllun um Björgólf, undir fyrirsögninni „Þórs saga“ og með myndum af Björgólfi í Bláa lóninu, er rifjað upp þegar faðir Björgólfs var handtekinn fyrir 19 árum vegna Hafskipsmálsins. Segir að síðan þá hafi takmark Björgólfs verið að að endurheimta virðingu fjölskyldu sinnar. Segist Björgólfur virðingu vera sér efsta í huga - völd og peningar séu aðeins leiðin að því marki, enda deyi góður orðstír aldrei. Í blaðinu segir að það hafi tekið þennan 38 ára gamla mann aðeins einn áratug að verða milljarðamæringur og er leiðin á toppinn rakin ítarlega í greininni. Þá segir að velgengni hans hafi haft mikil áhrif á Íslendinga. Fyrir fimm árum hafi allir viljað vera tónlistarmenn eins og Björk. Nú vilji allir vera athafnamenn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×