Lífið

Eurovision 2005 - Dagur 2 - Ensk íslenskir blaðamenn í Kiev

Pjetur Sigurðsson skrifar
Vakna og framúr og demba sér í Eurovision höllina. Það er ekki laust við að maður hafi orðið fyrir dálitlum vonbrigðum, því mér fannst ekki sérlega mikið til hennar koma. Ósköp venjulegt körfuboltahús, svona kannski í stærri kantinum, en engu stærra en Laugardalshöllin.

Jú viti menn við getum alveg haldið keppni sem þessa. Að vísu sögðu mér enskir söngvakeppna aðdáendur, sem reyndar kalla sig blaðamenn og það fyrir Íslands hönd og eru merktir sem slíkir, að höll þessi væri sú minnsta hingað til. Þessir ágætu herramenn er einlægir aðdáendur Selmu og bera út drottins orð í þeim málum. Ég hlustaði á tvö lög á æfingu, það austuríska og lagið frá Litháen og fór síðan strax á blaðamannafund með austurísku keppendunum.

Smám saman er ég komast að því, sem eflaust allir aðrir blaðamenn sem hafa farið á keppni þessa, að það eru kannski ekki margir raunverulegir blaðamenn, þó að þeir séu með blaðamannaskírteini. Blaðamennirnir sem voru á austuríska fundinum voru í raun ekkert annað en aðdáendur flytjandans, eða keppninnar sem slíkrar. Austurríkismennirnir tóku lagið á fundinum og ætlaði lýðurinn í salnum að tryllast af fögnuðu þó lagið væri ekki merkilegt. Þetta voru blaðamennirnir.

Ég ætla ekki að tryllast á blaðamannafundinum með Selmu sem verður síðar í dag, þó maður haldi að sjálfsögðu með henni.

Íslenski keppendahópurinn hefur notað daginn til að hvílast, en fyrsta æfingin fer fram kl. 13.50 að íslenskum tíma

Þar til næst

Kveðja frá Kiev, eða Kænugarði

©Pjetur






Fleiri fréttir

Sjá meira


×