Sport

Páll góður gegn gömlu félögunum

Grindvíkingar báru sigurorð af grönnum sínum í Njarðvík í úrslitaleik Bílavíkurmótsins í körfuknattleik í fyrrakvöld, 78-68, þar sem fyrrum leikmaður Njarðvíkur, Páll Kristinsson, var atkvæðamikill í liði Grindvíkinga. Páll skoraði 19 stig, hirti 17 fráköst og átti 6 stoðsendingar í úrslitaleiknum og var fyrrum félögum sínum of stór biti til að kyngja.Fréttablaðið sló á þráðinn til Páls og spurði hann hvernig hann væri að finna sig í gula búningnum og hvort ekki hefði verið skrítið að spila á móti gömlu félögunum. "Þetta mót var nú svo sem ekki þeirrar tegundar að maður hoppaði hæð sína í loft upp yfir sigrinum. Það vantaði auðvitað marga menn í öll lið og æfingar liðanna eru komnar mjög stutt á veg, þannig að þetta gefur nú kannski ekki góða mynd af stöðu liða. Þetta gekk dálítið upp og niður hjá okkur á þessu móti, en ég held að við getum engu síður verið þokkalega sáttir við okkar frammistöðu. Liðið spilaði ágætlega saman þrátt fyrir fáar æfingar og ég held að hópurinn eigi eftir að smella bara vel saman í vetur," sagði Páll, sem lætur vel af að því að leika undir stjórn Friðriks Inga Rúnarssonar á ný. "Ég þekki auðvitað vel til Friðriks og hef spilað undir hans stjórn með landsliðinu og Njarðvík, þannig að það auðveldar mér mikið að koma inn í þetta Grindavíkurlið. Ég veit nokkurn veginn hvernig Friðrik byggir hlutina upp og til hvers hann ætlast af manni, þannig að þessi félagaskipti hjá mér hefðu kannski geta verið flóknari en raun ber vitni," sagði Páll sem er hæstánægður með andann í Grindavíkurliðinu og segir stefnuna þar á bæ að sjálfsögðu setta á að vinna titla í vetur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×