Sport

Höttur fær til sín nýja menn

Hattarmenn hafa fengið nýjan bandarískan þjálfara til að stjórna liðinu í frumraun sinni í úrvalsdeild karla í körfubolta. Með honum kemur nýr leikmaður sem meðal annars reyndi fyrir sér í NBA-deildinni í sumar. Höttur vann sér þátttökurétt í úrvalsdeild karla í fyrsta sinn í sögu félagsins síðasta vor og það er hugur í mönnum á Austurlandi á að takast á við úrvalsdeildina í vetur. Eugene Christopher þjálfaði lið Hattar í 1. deildinni í fyrravetur en hann gekk undan því að þjálfa liðið í vetur en mun samt sem áður spila með liðinu. Í hans stað hafa Hattarmenn ráðið Kirk Baker 37 ára gamlan Bandaríkjamann til að þjálfa liðið. Auk þess hafa þeir fengið Kanadamanninn Kwbana Beckles til að spila með liðinu en hann er rúmlega tveggja metra maður sem hefur enskt ríkisfang og reyndi fyrir sér hjá NBA-liðinu Atlanta Hawks í sumar. Beckles var í Lee háskólanum síðasta vetur þar sem hann var með 11,2 stig og 5,8 fráköst að meðaltali á þeim 23,4 mínútum sem hann spilaði í leik."Það var samkomulag gert við Eugene um að hann hætti að þjálfa liðið," sagði Hafsteinn Jónsson formaður Hattar en nýráðinn þjálfari mun ekki spila með liðinu þótt að þar færi frambærilegur körfuboltamaður. "Við getum ekkert notað hann sem leikmann því það má ekki vera með meira en einn kana. Hann er líka orðinn svo gamall og er því hættur að spila," sagði Hafsteinn en hann var að taka á móti nýju mönnunum í gær og þeir eru síðan á leið með liðið á Greifamótið á Akureyri um helgina þar sem þeir fá fyrstu reynsluna á að takast á við bestu körfuboltalið landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×