Arsene Wenger, stjóri Arsenal, ætlar ekki að taka upp budduna í janúar og spreða peningum í leikmenn nema einhver sérstakur leikmaður verði á lausu. Því er haldið fram að eitthvað sé til af peningum í bauknum hjá Arsenal þó félagið tali um að halda að sér höndum, en nöfn þeirra Dirk Kuyt og Fernando Torres hafa verið nefnd í því sambandi.
"Það eina sem ég get sagt í augnablikinu er að við erum ekki með neinn ákveðinn leikmann í huga," sagði Wenger. "Ég vil taka það fram að ég ber fullt traust til þeirra leikmanna sem ég hef úr að moða í dag og við munum ekki bæta við okkur nema einum eða tveimur leikmönnum, að því gefnu að það séu sérstakir leikmann sem geti styrkt liðið verulega," sagði Wenger.