Innlent

Fær ættleiðingu ekki greidda

Héraðsdómur Reykjavíkur Fjarlægja þurfti leg konunnar eftir keisaraskurð sem olli því að hún gat ekki eignast fleiri börn.
Héraðsdómur Reykjavíkur Fjarlægja þurfti leg konunnar eftir keisaraskurð sem olli því að hún gat ekki eignast fleiri börn.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt konu eina milljón króna í bætur frá ríkinu vegna læknamistaka en vísaði hins vegar frá bótakröfu hennar vegna fyrirhugaðrar ættleiðingar barna frá Kína.

Læknir sagði konunni að rembast um of við fæðingu fyrsta barns síns árið 1999. Fæðingin gekk ekki sem skyldi og þurfti að taka barnið með keisaraskurði tveimur dögum síðar. Í kjölfar keisaraskurðarins komu í ljós áverkar sem urðu til þess að fjarlægja þurfti leg konunnar. Viðurkennt var með dómi að mistök hefðu átt sér stað og var konunni því dæmd ein milljón króna í bætur.

Konan fór einnig fram á það að fá bætur vegna ættleiðingar tveggja barna frá Kína. Mistökin ollu því að hún gat ekki eignast fleiri börn þótt hún hefði ætlað sér að eignast tvö til viðbótar, og sagðist hún þegar hafa hafið undirbúning að ættleiðingu eins barns.

Héraðsdómur viðurkenndi að undirbúningur að ættleiðingu væri hafinn en hafnaði kröfunni vegna þess að enn væri óvíst að af ættleiðingunni yrði og því væri hugsanlegur kostnaður og tekjutap háð ókomnum atburðum og ekki hægt að leysa úr málinu að svo komnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×