Innlent

Ríkið heldur að sér höndum

Bensíni dælt Essó, Skeljungur og Olís hækkuðu eldsneytisverð á mánudaginn og Atlantsolía fylgdi í kjölfarið í gær.
Bensíni dælt Essó, Skeljungur og Olís hækkuðu eldsneytisverð á mánudaginn og Atlantsolía fylgdi í kjölfarið í gær.

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að stjórnvöld muni ekki grípa til neinna ráðstafana vegna hækkandi eldsneytisverðs. Öll olíufélögin hafa hækkað bensínlítra um þrjár krónur og 40 aura og dísilolíulítra um tvær krónur.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, lýsir furðu yfir fálæti stjórnvalda. „Miðað við meðalnotkun fjölskyldu þá hækka eldsneytisútgjöld um 50 til 70 þúsund krónur á einu ári miðað við þær verðbreytingar sem hafa orðið frá upphafi árs.“

Virðisaukaskattur af eldsneyti er hlutfallstala en Geir segir að þó felist ekki tekjuauki fyrir ríkissjóð í hækkuðu eldsneytisverði. „Við höfum jafnan litið svo á að ef menn borga meira í virðisaukaskatt af bensíni þá borga þeir minna í virðisaukaskatt af einhverju öðru eða minnka sína bensín­notkun.“ Geir segir að ekkert bendi til þess að þessi hækkun á heimsmarkaðsverði sé tímabundin og því komi ekki til álita að stjórnvöld grípi til aðgerða.

Albert Magnússon, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, segir miður að stjórnvöld komi ekki til móts við neytendur. „Í svona miklum hækkunum tökum við minni skerf en við annars myndum gera til að lina fallið en ríkið tekur alltaf það sama. Á endanum eru það neytendur sem borga brúsann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×