„Við finnum virkilega fyrir því að aðstoðarbeiðnum til okkar er að fjölga,“ segir Gunnar Stefánsson, sviðsstjóri hjá Landsbjörg. Í sumar hafa björgunarsveitir verið kallaðar til tvisvar til þrisvar sinnum á dag að jafnaði.
Gunnar segir fjölgun ferðamanna aðalástæðu þess að björgunarsveitir landsins hafi haft mikið að gera í sumar, en nefnir þar að auki miklar rigningar með tilheyrandi aurbleytu. „Einnig er mikið af erlendum ferðamönnum sem hafa kannski ekki okkar þekkingu á vegunum. Þeir halda að þeir geti farið lengra en gert er ráð fyrir að bíllinn komist, eins og á fólksbílum upp á hálendið,“ segir Gunnar.