Þrír menn voru handteknir á Siglufirði á föstudagskvöldið grunaðir um eiturlyfjasölu þar í bæ.
Lögregla hefur haft þremenningana grunaða í þónokkurn tíma og hefur fylgst náið með þeim undanfarnar vikur. Um er að ræða tvo menn um tvítugt og einn á fimmtugsaldri.
Lögreglan á Siglufirði naut aðstoðar tveggja lögreglumanna frá sérsveit ríkislögreglustjóra við rannsókn málsins.
Mennirnir þrír voru handteknir hver í sínu lagi og höfðu þeir allir fíkniefni í fórum sínum. Samtals voru mennirnir gripnir með fimmtán grömm af hassi, átta grömm af ætluðu amfetamíni og tíu e-pillur.
Eftir handtökuna var gerð leit í farartækjum mannanna og jafnframt leitað í tveimur húsum í bænum tengdum mönnunum. Í húsunum tveim fundust áhöld til neyslu. Við húsleitirnar var notaður fíkniefnaleitarhundur frá Tollstjóranum í Reykjavík.
Tveir sakborninganna játuðu við yfirheyrslur að eiga fíkniefnin en sá þriðji hefur enn ekki játað.
Málið telst upplýst að sögn lögreglu.