Innlent

Ökumennirnir gæta sín ekki

Sturla Böðvarsson Samgönguráðherra segir mörg slys verða vegna ökuhraða.
Sturla Böðvarsson Samgönguráðherra segir mörg slys verða vegna ökuhraða.

Ellefu hafa látist í umferðinni á árinu. Slysin hafa orðið jafnt í þéttbýli sem dreifbýli og ýmist ökumenn, farþegar eða gangandi vegfarendur hafa látið lífið. Þá hafa orðið slys, bæði vegna árekstra og útafaksturs.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra segir að víða þurfi að gera endurbætur á vegum en ábyrgðin hvíli fyrst og fremst á ökumönnum.

„Ég held að það séu fyrst og fremst ökumennirnir sem gæta sín ekki í umferðinni. Auðvitað er víða nauðsynlegt að lagfæra vegakerfið, við þekkjum það, en alltof mörg slys verða vegna ökuhraða og aðstæðna sem ökumenn ráða ekki við.“

Sturla bendir á að mikið forvarnarstarf sé unnið, og í raun hafi það aldrei verið meira. Þá sé sérstakt eftirlit á vegum úti. „Umferðarstofa er upp á hvern einasta dag að brýna fyrir fólki að fara varlega og í gangi er umferðar­öryggisáætlun þar sem tekið er á þessum þáttum öllum. Í gildi er sérstakur samningur milli samgönguráðuneytis, Umferðarstofu, lögreglu og Vegagerðar og allar þessar aðgerðir eru meiri en nokkru sinni áður. Við Íslendingar erum að vinna í þessu og það skiptir máli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×