Innlent

Tjón metið á um tíu milljónir

Ford escape jeppi Einn af bílunum sem skemmdust í íkveikjunni á plani bílasölunnar.
Ford escape jeppi Einn af bílunum sem skemmdust í íkveikjunni á plani bílasölunnar. MYND/Hrönn

Maður um tvítugt kveikti í tveimur BMW-bifreiðum á plani bílasölunnar Bill.is við Malarhöfða í fyrrinótt. Starfsmaður bílasölunnar metur tjónið á ríflega tíu milljónir króna.

Svo virðist sem maðurinn hafi hellt eldfimum vökva yfir bifreiðarnar og borið eld að. Síðan rann önnur bifreiðin framan á Volkswagen Golf-bifreið, sem kviknaði í í framhaldið.

Lögreglumaður í eftirlitsferð varð eldsins var um hálf eitt leytið og gerði slökkviliði viðvart. Þegar slökkvilið bar að garði voru bílarnir þrír gjörónýtir. Aðrir tveir bílar, Mercedes-Benz og Ford Escape, sem stóðu við hlið bílanna sem kveikt var í, skemmdust töluvert vegna elds og hita.

Stuttu eftir íkveikjuna leitaði ungur maður á slysamóttökuna í Fossvogi með alvarleg brunasár í andliti. Við eftirgrennslan lögreglu á slysamóttökunni játaði maðurinn að hafa verið valdur að brunanum. Hann hefur áður komist í kast við lögin. Að sögn starfsmanns er plan bílasölunnar vaktað yfir nóttina af Securitas-næturvörðum. Hann segir alls óvíst hvort tjónið verði bætt. Bílarnir séu allir með kaskótryggingu en koma muni á daginn hvort hún nái yfir skemmdir af þessu tagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×