Framteljendur og fyrirtæki landsins fengu hærri tekjur og högnuðust meira á fyrri árshelmingi 2006 en á sama tímabili í fyrra. Skatttekjur ríkissjóðs af tekjum og hagnaði þeirra voru þar af leiðandi þriðjungi hærri. Þetta gerist þrátt fyrir að tekjuskattsprósenta á einstaklinga hafi lækkað um seinustu áramót. Almennt verðlag hækkaði um 5,7 prósent frá því í fyrra.
Tekjuskattur á fyrirtæki og aðra lögaðila tæplega tvöfaldaðist miðað við fyrri árshelming 2005 og voru tekjur ríkissjóðs vegna tekjuskatts á fyrirtæki því rúmlega níu og hálfur milljarður.
Vegna sölu Landssímans á sama tímabili í fyrra drógust aðrar rekstrartekjur ríkisins saman um 41 prósent frá ári til árs.
Athygli vekur að eignarskattur var um fimm og hálfur milljarður á fyrri hluta ársins. Að sögn fjármálaráðuneytisins er það vegna þess að stimpilgjöld flokkast undir þennan flokk og auk þeirra voru einn og hálfur milljarður eignarskatta fyrri ára innheimtir á þessu ári.