Erlent

Eftirlitssveitin lýsir ekki yfir stríði

Liðsmaður sérsveitar stjórnarhersins Þessi hermaður fylgist sérstaklega með hjólhestum, en þeir eru vinsæl flutningatæki fyrir sprengjur og önnur vopn.
Liðsmaður sérsveitar stjórnarhersins Þessi hermaður fylgist sérstaklega með hjólhestum, en þeir eru vinsæl flutningatæki fyrir sprengjur og önnur vopn. MYND/photos/afp

Norræna eftirlitssveitin, SLMM, mun ekki bregðast við beiðni Tamílatígra síðan á mánudaginn, en hún var þess efnis að skorið yrði úr um hvort eiginlegt stríð væri hafið á eyjunni og hvort vopnahléssamningurinn væri fallinn úr gildi.

Þorfinnur Ómarsson, talsmaður SLMM, sagði í viðtali við Fréttablaðið að það væri ekki í verkahring SLMM að rifta friðarsamningum. "Til að vopnahléið falli úr gildi þarf annaðhvort ríkisstjórn Srí Lanka eða Tamílatígrarnir að senda skriflega yfirlýsingu þess efnis til norsku ríkisstjórnarinnar. Norska ríkisstjórnin, sem fer með forræði í friðarferlinu, gæti einnig ákveðið að pakka saman og hætta þessu, en það gerum við ekki."

Eftirlitssveitin mun hins vegar senda frá sér á næstu dögum ályktun um hvort ákvæði vopnahléssamningsins hafi verið brotin þegar árásin á vatnsveituna var gerð í síðasta mánuði, en hún tengist núverandi átökum við Sampur.

Tamílatígrarnir sögðu í gær á fundi við norska sendiherrann að ef þeim yrði ekki skilað Sampur-svæðinu aftur myndu þeir líta á það sem stríðsyfirlýsingu frá stjórnarhernum. Þorfinnur segir að ef stríð brjótist út og samningnum verði sagt upp með formlegum hætti, njóti SLMM tveggja vikna friðhelgi til að yfirgefa eyjuna. "En ég sé það ekki í stöðunni, ég held að enginn sé að fara að segja þessum samningi upp, báðir aðilar hafa það mikinn hag af honum," sagði Þorfinnur í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×