Menning

Af óknyttapiltunum Max og Mórits

Rithöfundurinn þórarinn eldjárn Barnabækur eru oft lesnar algjörlega upp til agna en sagan um Max og Mórits er svo sannarlega ein af þeim.
Rithöfundurinn þórarinn eldjárn Barnabækur eru oft lesnar algjörlega upp til agna en sagan um Max og Mórits er svo sannarlega ein af þeim. MYND//anton brink

Sjö strika strákasaga þýska rithöfundarins og myndlistarmannsins Wilhelm Busch um pörupiltana Max og Mórits hefur skemmt kynslóðum barna í tæpa hálfa aðra öld. Bókin kom út í íslenskri þýðingu Kristjáns Eldjárn árið 1981 og er nú loksins fáanleg aftur. Enda á boðskapur sögunnar fullt erindi við ólátabelgi í dag.

„Bókin hefur árum saman verið mjög illilega ófáanleg. Hún kom út í ósköp venjulegu upplagi sem kláraðist á tilteknum tíma og síðan hefur hún ekki sést. Ég hef stundum þurft að útvega mér eintök en það hefur jafnan þurft meiraháttar aðgerð til þess svo þetta er löngu tímabært," útskýrir rithöfundurinn Þórarinn Eldjárn sem stendur að endurútgáfu bókarinnar.

Faðir hans, Kristján Eldjárn þjóðminjavörður og fyrrum forseti, þýddi söguna um Max og Mórits fyrir börnin sín. Þórarinn segist hafa verið komin á fullorðins ár þegar hún kom út en yngri systkini sín hafi mögulega fengið smjörþefinn af óknyttum félaganna fyrst barna á Íslandi.

„Söguhetjurnar eru afskaplega miklir pörupiltar og hrekkjusvín og mörg þeirra brögð sýna innræti sem ekki er neitt sérstaklega fallegt. Það fer heldur ekki vel fyrir þeim á endanum en það hefur sjálfsagt þótt hafa mikið uppeldisgildi á sínum tíma að sýna börnum hvernig fer fyrir þeim sem haga sér illa," segir Þórarinn en bætir því við að framsetningin sé samt þess eðlis maður taki ekki sögunni bókstaflega.

Þórarinn útskýrir að höfundurinn Wilhelm Busch hafi verið afkastamikill og frægur á sinni tíð, einkum í Þýskalandi en einnig á Norðurlöndunum. Faðir hans fékk stærðarinnar bók með úrvali teiknisagna hans að gjöf en markmiðið með útgáfu hans á þýðingu sinni var ekki aðeins að kynna kumpánana fyrir fleiri lesendum heldur einnig hinn fræga dráttlistarmann og orðsnilling.

Þórarinn segir föður sinn hafa verið afskaplega vel hagmæltan og bendir á að hann hafi fengist töluvert við kveðskap og þýðingar. „Hann hafði mjög gaman af kveðskap og orti í raun mjög mikið, svona tilfallandi í dagsins önn. Mesta stórvirkið er líklega þýðing hans á Norðurlandstrómet eftir Petter Dass, heljarmikill bálkur eftir gamalt norskt sálmskáld sem kom út hér á landi árið 1977. Hann var oft að þýða að gamni sínu, ljóð eftir ýmis góðskáld en fæst af því hefur nokkurn tíma birst."

Bókin um Max og Mórits er nú gefin út í nafni minningarsjóðs Kristjáns Eldjárns gítarleikara og elsta sonar Þórarins sem lést árið 2002. „Okkur langaði að stofna sjóð sem ætti að hafa það hlutverk að veita styrki eða verðlaun til tónlistarmanna sem skara framúr með einhverjum hætti," útskýrir Þórarinn. Dágóð upphæð hefur safnast í sjóðinn sem meðal annars hefur staðið fyrir minningartónleikum og gefið út diskinn „Ljóð, hljóð og óhljóð", samstarfsverkefni þeirra feðga þar sem Þórarinn les eigin ljóð við spunakenndan gítarleik Kristjáns.

Þórarinn segist vonast til að hægt sé að úthluta úr sjóðnum næsta sumar en í því skyni verður sett af stað svolítið átak til þess að efla hann í vetur og er útgáfa bókarinnar liður í því.

„Svo þarf þessi bók auðvitað að vera til," segir hann sposkur. „Það er oft þannig með barnabækur, gjarnan ljóðabækur, þær klárast en eru lesnar gjörlega upp til agna á hverju heimili en sjást svo ekki meir. Það er ekki hugað nógu vel að því að halda þeim í útgáfu þannig að útgáfan nú er að sýnu leiti tilraun til þess."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×