Innlent

Starfslokasamningur stöðvaði kjarasamning

Þegar stjóraskipti í FL Group voru tilkynnt á síðasta ári grunaði víst fæsta að eftirleikurinn ætti eftir að verða jafn hávaðasamur og raun ber vitni.
Þegar stjóraskipti í FL Group voru tilkynnt á síðasta ári grunaði víst fæsta að eftirleikurinn ætti eftir að verða jafn hávaðasamur og raun ber vitni. MYND/Hari

Starfslokasamningur forstjóra FL-group varð til þess að Félag íslenskra atvinnuflugmanna sleit samningaviðræðum við Icelandair um að lækka áhafnakostnað vegna leiguflugs. Flugmönnum þótti í ljósi kringumstæðna ekki við hæfi að halda áfram viðræðum.

Icelandair átti frumkvæði í haust að viðræðum við Félag íslenskra atvinnuflugmanna um að aðlaga samninga flugmanna að leiguverkefnum dótturfélagsins Loftleiða. Flugfélagið vildi fá meiri sveigjanleika í vinnutíma flugmanna og breyta reglum um dagpeninga til að Loftleiðir gætu orðið samkeppnishæfari í tilboðum um leigflug víða um heim.

Halldór Þ. Sigurðsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, staðfesti í dag að stjórn félagsins hefði slitið viðræðum þegar fréttist af ofurlaunum og starfslokasamningum forstjóra. Heimildarmaður úr röðum flugmanna talar um launasukk og segir þá ekki hafa áhuga á að semja um afslátt af sínum kjörum í ljósi kringumstæðna.

Talsmaður Icelandair, Guðjón Arngrímsson, kvaðst í dag ekkert hafa um þetta að segja en sagði menn þó gera sér vonir um að þráðurinn yrði tekinn upp að nýju innan tíðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×