Eigandi AC Milan, Silvio Berlusconi, hefur viðurkennt að úkraínski framherjinn Andriy Shevchenko sé á leið til Englands. Forsætisráðherran fráfarandi viðurkenndi þetta við hóp nemenda sem heimsóttu skrifstofu hans í dag. Umboðsmaður framherjans segir ekki loku fyrir það skotið að hann fari frá Milan í sumar.
Þegar nemendurnir báðu forsætisráðherran fyrir kveðju til Shevchenko í dag, hvíslaði hann að þeim að hann væri líklega á leið til Englands, því þangað vildi hann fara. Þeir Berlusconi og Shevchenko eiga að hafa átt fund á sunnudaginn þar sem þeir ræddu framtíð framherjans hjá félaginu.
Það er löngu vitað að Englandsmeistarar Chelsea hafa mikinn áhuga á að fá Shevchenko til liðs við sig og orðrómur er á kreiki um að liðið gæti hugsanlega boðið þá Hernan Crespo og William Gallas sem skiptimynt í kaupunum.