Norski dómarinn Terje Hauge segist sjá nokkuð eftir ákvörðun sinni að senda Jens Lehmann af leikvelli með rautt spjald í upphafi úrslitaleiksins í meistaradeildinni í gær og viðurkennir að hann hefði átt að bíða aðeins lengur með að taka ákvörðun sína.
"Ég hefði líklega átt að bíða nokkrar sekúndur í viðbót með að taka ákvörðun og þá hefði ég nú sennilega gefið Lehmann gult spjald og látið markið standa. Annars fannst mér við hafa ágæt tök á leiknum og ég er þokkalega sáttur við mína frammistöðu. Við verðum að bíða aðeins og meta þetta eftir nokkra daga," sagði Hauge í viðtali við norska fjölmiðla í morgun.