Innlent

Enn standa spilliefni á gamla lagersvæði Olís

Mikið magn spilliefna stendur enn á gamla lagersvæði Olís við Kölluarklettsveg þrátt fyrir að fögur fyrirheit fyrirtækisins um að öll efni yrðu horfin af lóðinni í lok þessarar viku.

Undanfarnar þrjár vikur hafa hin ýmsu spilliefni staðið á gamla lagersvæði Olís vegna flutninga en til stendur að afhenda Faxaflóahöfnum lóðina fljótlega.

Búið er að rýma öll húsin en eftir standa efni í tunnum um alla lóð sem eftir er að flytja í nýja lagerhúsnæðið.

Hjá Olís fengust þær upplýsingar að menn væru nú í óða önn að fjarlægja það litla sem enn væri eftir en þegar fréttamann bar að gerði var engin við þó hlið stæðu opin. Þó svæðið sé afgirt er hægðarleikur fyrir óprúttna náunga að bregða sér í gegnum girðingarnar. Samúel Guðmundsson, framkvæmdastjóri vörustýringarsviðs Olís, sagði fréttamanni fyrir skömmu að ekki væri verulegt magn að ræða og skamman tíma tæki að fjarlægja það sem eftir væri. Í dag greindi hann frá því að menn væru nú að störfum við að fjarlægja það litla sem eftir væri af efnum af svæðinu. Á myndum sem teknar voru í dag má þó sjá að enn stendur mikið magn efna á lóðinni og engin starfsmaður var sjáanlegur að störfum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×