Innlent

Vildu frávísun morðmáls

Dómari í máli gegn bandarískum hermanni, sem grunaður er um að hafa orðið tvítugri konu að bana á Keflavíkurflugvelli í ágúst, hefur neitað að vísa málinu frá. Verjendur mannsins kröfðust frávísunar á grundvelli þess hversu lengi hermaðurinn hefur verið í haldi.

Hermaðurinn Cavin Hill á yfir höfði sér dauðadóm fyrir að hafa orðið hermanninum Asley Turner að bana í fjölbýlishúsi á hervellinum í Keflavík í ágúst, verði hann dæmdur sekur. Hill hefur setið í gæsluvarðhaldi í þremur löndum í 333 daga. Samkvæmt herlögum hefur ríkið 120 daga til þess að ákæra í máli eftir að sá hinn grunaði hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald uns dómur fellur. Hins vegar leyfa lögin dómara að lengja þann tíma í flóknum málum telji hann þess þörf. Dómarinn vill gefa hernum meiri tíma til þess að rannsaka gögn eins og skóreimar Hills sem á fannst blóð og hár úr Turner. Verjendur Hills reyndu án árangurs að sannfæra dómarann um að rannsakendur hefðu dregið lappirnar við rannsókn málsins frá því í nóvember. Því var mótmælt og bent á að yfir tvö hundruð viðtöl hefðu verið tekin og nærri níutíu sýni hefðu verið send til frekari rannsóknar og varla hefði sá dagur liðið sem ekki hefði verið unnið í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×