Innlent

Íslendingar skildir eftir í Beirút

MYND/AP

Íslendingunum í Beirút, höfuðborg Líbanons, var meinað að yfirgefa borgina í rútum þar sem Norðmenn voru látnir ganga fyrir. Utanríkisráðherra segist vonsvikinn vegna málsins, en brýnt þótti að fólkið kæmist heim hið fyrsta vegna þess stríðsástands sem ríkir í landinu.

Már Þórarinsson, flugvirki á vegum Atlanta, er einn þeirra sex íslendinga sem enn eru strandaglópar í Beirút. Hann segir Íslendinganna hafa verið komna í rúturnar þegar þeim var sagt að yfirgefa þær. Norðmenn gengju fyrir.

Ástandið í Líbanon er afar ótryggt. Sprengjum rignir yfir borgina. Már segir það hafa verið hrikalegt að horfa á eftir rútunum keyra burt. Þau sjái vart fram á að komast út úr borginni fyrr en eftir viku. Ein íslensk fjölskylda fékk að fara með rútunum þar sem konan var ólétt.

Greina mátti vonbrigði í rödd Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra þegar kom í ljós að Íslendingarnir hefðu ekki komist í rúturnar. Hún íhugar nú að senda 480 sæta flugvél til Kýpur sem gæti komið flóttafólki frá Líbanon til hjálpar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×