Innlent

Engar rútuferðir á morgun

Íslensk kona ásamt fjögurra mánaða ungabarni og eiginmanni sínum er ein þeirra sex Íslendinga sem enn eru strandaglópar í Beirút. Íslendingarnir voru komnir upp í rútu í hádeginu í dag þegar þeim var vísað út og sagt að Norðmenn gengju fyrir.

Alls voru ellefu Íslendingar í fastir í Líbanon þegar stríðið hófst á miðvikudaginn. Einn komst til Sýrlands í gærkvöldi og fyrir mildi komst ófrísk íslensk kona ásamt fjölskyldu sinni upp í rúturnar í morgun. Stuttu fyrir kvöldfréttir NFS komust norsku rúturnar á áfangastað í Sýrlandi.

Starfsmenn utanríkisþjónustunnar hafa í allan dag verið í sambandi við Íslenska ríkisborgara í Beirút. Aðgerðunum er stjórnað frá ráðuneytinu. Þegar myndatökumenn NFS bar að garði barst símtal frá Norðmönnum. Þeir voru að tilkynna ráðuneytinu að þeir væru hættir við áætlaðar rútuferðir í fyrramálið.

Þrátt fyrir að frændur okkar norðmenn hafi sýnt að frændur eru frændum verstir ákvað Valgerður Sverrisdóttir klukkan fjögur í dag að senda 472 sæta flugvél frá Bretlandi til Damaskus að sækja Norðurlandabúa í neyð. Íslenska björgunarvélin mun leggja af stað síðdegis á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×