Innlent

Lífeyrisgreiðslur til eldri borgara hækka

Lífeyrisgreiðslur til eldri borgara hækka og bótakerfið verður einfaldað. Þessu lofar ríkið í nýju samkomulagi við Landssamband eldri borgara.

Með samkomulaginu er vonast til að sátt hafi náðst milli Ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara en Landssamband eldri borgara hefur lengi barist fyrir réttindum sínum. Í samkomulaginu er gert ráð fyrir 15 þúsund króna hækkun á lífeyrisgreiðlsum frá Tryggingastofnun

sem mun koma til greiðslu um næstu mánaðarmót. Eins munu bætur lækka minna vegna tekna maka og annarra tekna bótaþega en nú er. Þá verður tekið upp frítekjumark vegna atvinnutekna lífeyrisþega, vasapeningar hækkaðir og starfslok gerð sveigjanleg þannig að lífeyrisgreiðslur hækki við frestun á töku lífeyris. Allar breytingarnar á bótakerfinu sem samkomulagið gerir ráð fyrir mun einnig ná til örorkubótaþega.

Samkomulagið nú er unnið upp úr skýrslu nefndar sem sett var á fót í janúar á þessu ári og hefur ríkisstjórnin ákveðið að beita sér fyrir framkvæmd þeirra tillagna sem nefndin lagði til. Þar er meðal annars gert ráð fyrir að fjármagn til framkvæmda og reksturs á hjúkrunarrýmum verði aukið stórlega, framboð á þjónustu- og öryggisíbúðum verði fullnægjandi og að fjármagn úr Framkvæmdarsjóði aldraða gangi til uppbyggingar öldrunarstofnana en ekki til reksturs eins og nú er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×