Innlent

Vilja kanna kosti einkasjúkrahúss í Fossvogi

MYND/GVA

Læknafélag Íslands vill að skoðað verði hvort hægt verði að reka áfram sjúkrahús í Fossvogi, jafnvel í einkarekstri, eftir uppbyggingu við Hringbaut. Með því eigi læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn kost á öðrum vinnustað en Landspítalanum. Þetta kom fram í máli Sigurbjarnar Sveinssonar, formanns Læknafélags Íslands, í viðtali á NFS í morgun.

Þar var rætt um yfirlýsingu Læknafélagsins þess efnis að sameining spítalanna í Fossvogi og Hringbraut hefði verið misráðin. Sigurbjörn segir að í greingargerð með ályktuninni sé bent á að heppilegt geti verið að reka áfram sjúkrastofnun eða spítala í húsnæðinu í Fossvogi og þá jafnvel í einkarekstri svo fólk eigi kost á öðrum lausnum en þeim sem veittar verði á ríkisspítalanum. Jafnframt eigi læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn þannig kost á öðrum vinnustað.

Aðspurður hvort hugmyndin hafi þróast eitthvað segir Sigurbjörn að hann hafi rætt við menn um hana og þeir hafi bent á að hugsanlega gæti spítali sem hafi ekki sömu skyldur og háskólasjúkrahús verið afkastameiri við lausn ýmissa vandamála. Hann telji að menn eigi að velta kostinum fyrir sér og hugsanlega gætu fjárfestar utan heilbrigðisgeirans komið að málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×