Erlent

Steve Irwin allur

Ástralski "krókódílamaðurinn" Steve Irwin lést við köfun undan ströndum Ástralíu í dag. Skata stakk hann í hjartastað. Irwin var heimsfrægur fyrir vinsæla dýralífsþætti sína þar sem hann lagði líf sitt oftar en ekki hættu í samskiptum sínum við krókódíla og önnur hættuleg dýr.

Steve Irwin var sjónvarpsáhorfendum um allan heim að góðu kunnur. Hann lét sig ekki muna um að fóðra krókódíl með annari hendi og barnið sitt í hinni. Það gerði hann fyrir framan sjónvarpsáhorfendur og hlaut bágt fyrir.

Irwin var mikill áhugamaður um náttúruvernd og óþreytandi talsmaður krókódíla. Stundum þótti hann full glæfralegur framkomu við villidýrin. Hann meðhöndlaði krókódíla, hættulegar köngulær og snáka af virðingu en með hæfilegum gáska.

Irwin var í dag að kafa við Batt rifið undan ströndu Queensland í norðaustur Ástralíu og var að taka upp sjónvarpsþátt um hættulegustu dýr í heimi. Hann synti of nálægt einni skötunni og hún stakk hann í hjartastað með hala sínum.

John Howard forsætisráðherra Ástralíu sagði um Irwin að hann hefði verið einstakur maður og verið hjartfólginn bæði Áströlum og fólki um allan heim.

Blóm og kransar streymdu í dag til dýragarðsins í Queensland í Ástralíu til minningar um Steve Irwin. Ökumenn þeyttu bílflautur til heiðurs honum er þeir óku þar hjá. Irwin lætur eftir sig eiginkonu og tvö ung börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×