Sport

Gleði og sorg hjá Eiði Smára

Eiður Smári sést hér fagna marki sínu í kvöld.
Eiður Smári sést hér fagna marki sínu í kvöld. Getty Images

Eiður Smári Guðjohnsen skoraði en meiddist illa þegar Barcelona og Chelsea skildu jöfn, 2-2, í stórleik kvöldsins í Meistaradeildinni. Eiður Smári kom Barca í 2-1 á 58. mínútu en meiddist, að því er virtist alvarlega, á ökkla um stundarfjórðungi síðar.

Eiður Smári var að reyna að ná til boltans á miðjum vellinum þegar um 15 mínútur voru eftir af leiknum en í því steig hann vitlaust í vinstri fótinn og snéri ökklann afar illa. Íslenska landsliðsfyrirliðanum var strax skipt af velli og virtist hann sárþjáður er hann var borinn af leikvelli. Ekki er vitað á þessari stundu hversu lengi Eiður Smári verður frá en líklegt er að meiðslin séu alvarleg.

Eftir rólegan fyrri hálfleik lét Eiður Smári vel til sín taka í þeim síðari og skoraði hann markið sem leit út fyrir að tryggja Barcelona þrjú dýrmæt stig. Það gerði hann á 58. mínútu eftir magnaðan undirbúning Ronaldinho. Þess má geta að Eiður Smári fagnaði marki sínu vel og innilega.

Áður hafði Frank Lampard jafnað leikinn í 1-1 á 51. mínútu og það var síðan Didier Drogba sem jafnaði metin í 2-2 á 92. mínútu með laglegu marki. Úrslitin þýða að staða Barcelona í A-riðlinum er allt annað en góð því Werder Bremen vann öruggan 3-0 sigur á Levski Sofia á sama tíma. Chelsea er efst með 10 stig, Werder Bremen kemur næst með 7 stig en Barca er aðeins með 5 stig í þriðja sætinu þegar tveir leikir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×