Körfubolti

Loksins sigur hjá Dallas

Drew Gooden átti fínan leik í sigri Cleveland á Chicago í nótt
Drew Gooden átti fínan leik í sigri Cleveland á Chicago í nótt NordicPhotos/GettyImages

Þrír leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt en þar bar hæst viðureign Phoenix Suns og Dallas Mavericks. Báðum liðum hefur gengið afleitlega í upphafi leiktíðar en svo fór að lokum að Dallas nældi í fyrsta sigur sinn eftir fjögur töp í röð.

Dallas lagði Phoenix 119-112 á útivelli í leik sem sýndur var beint á NBA TV sjónvarpsstöðinni og var hin besta skemmtun. Dirk Nowitzki fór fyrir Dallas í nótt með því að skora 35 stig, Jason Terry skoraði 30 og Jerry Stackhouse skoraði 23 stig. Leandro Barbosa skoraði 30 stig fyrir Phoenix sem hefur tapað fimm af fyrstu sex leikjum sínum, Shawn Marion skoraði 21 stig, Steve Nash skoraði 20 stig, gaf 9 stoðsendingar og tapaði 10 boltum og þá var Amare Stoudemire með 16 stig og 8 fráköst.

Cleveland hristi af sér tvö slæm töp fyrir lakari liðum deildarinnar með því að bursta Chicago 113-94 á heimavelli sínum. Drew Gooden skoraði 20 stig og hirti 9 fráköst fyrir Cleveland og LeBron James skoraði 19 stig og gaf 12 stoðendingar, en það voru annars varamenn liðsins sem riðu baggamuninn í leiknum með góðri hittni. Kirk Hinrich var eini leikmaður Chicago sem spilaði á pari og skilaði 20 stigum og 11 stoðsendingum. Andres Nocioni skoraði 15 stig.

Loks tapaði New Orleans sínum fyrsta leik þegar liðið lá fyrir Golden State í Oakland. Baron Davis skoraði 36 stig og gaf 9 stoðsendingar fyrir Golden State, Monta Ellis skoraði 21 stig og Troy Murphy 20 stig. Chris Paul fór fyrir liði New Orleans með 34 stigum og 10 stoðsendingum, David West skoraði 21 stig og Peja Stojakovic setti 18 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×