Það er dauft yfir Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Reykjavík. Í morgun var öllum hænum, aligæsum og aliöndum í garðinum fargað og matargjöfum til hundraða villtra fugla hætt.
Tveir dýralæknar fóru um garðinn í morgun og förguðu á annan tug alifugla með eitri. Það var því óvenju hljótt í garðinum í morgun og dauft yfir starfsfólkinu, skiljanlega. Eftir eru tveir fálkar og haförn, sem hafa verið vistaðir í garðinum um stundarsakir Þessir fuglar sem við sjáum hér eru villtir fuglar sem hefur verið gefið í garðinum en því á að hætta.
Að sögn forstöðumannsins koma nokkur hundruð fuglar á dag í leit að æti en með því að hætta að gefa þeim flæmst þeir væntanlega í burtu.
Síðustu mánuði hefur Landbúnaðarstofnun skimað fyrir fuglaflensu í ljósi yfirvofandi hættu á að hið skæða afbrigði fuglaflensu H5N1 geti borist til landsins.
Tekin voru 160 blóðsýni af alifuglategundum sem öll voru neikvæð nema sýni sem tekin voru nýlega í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Þar voru tekin sýni úr 10 landnámshænum og reyndust fjögur jákvæð vegna mótefna gegn vægum tegundum af fluglaflensu af H5-stofni.
Þrátt fyrir að mótefni hafi aðeins fundist gegn vægum afbrigðum af fuglaflensu og engin merki hafi verið um veikindi í fuglunum taldi Landbúnaðarstofnun nauðsynlegt að brugðist væri við með því að aflífa fuglana og varð landbúnaðarráðherra við þeirri tillögu.
Alþjóðadýraheilbirgðisstofnunin hefur lagt til að fuglum þar sem H5-stofninn finnst verði fargað en vísindamenn telja að ef H5 veira sé fyrir hendi í fuglum geti verið hætta á að hún breytist úr því að vera væg yfir í að verða skæð.