Innlent

Nafni Avion Group hf. breytt í Hlutafélagið Eimskipafélag Íslands

Óskabarn íslensku þjóðarinnar, Hf. Eimskipafélag Íslands, er á ný orðið hlutafélag í Kauphöll Íslands eftir að hluthafar samþykktu í morgun að breyta nafni Avion Group. Um leið hafa höfuðstöðvarnar verið fluttar úr Kópavogi í Sundahöfn í Reykjavík.

Nafnbreytingin var samþykkt með meginþorra atkvæða og tekur hún gildi þegar í stað.

Um leið hafa höfuðstöðvar félagsins á ný verið fluttar á hafnarsvæði en heimilisfangið er nú í Korngörðum í Sundahöfn. Félagið hefur vaxið gríðarlega að undanförnu og er gert ráð fyrir að velta þess á næsta ári verði yfir 130 milljarðar krónaa. Þar af koma ríflega 80 prósent af þeim hluta sem heyrir undir Eimskip en um 20 prósent kemur frá Air Atlanta. Athygli vekur að um 80 prósent af tekjunum koma frá starfsemi erlendis en aðeins um tuttugu prósent tengjast flutningum innanlands og til og frá Íslandi.

Hlutafélagið Eimskipafélag Íslands er 92 ára gamalt og var lengst af fjölmennasta almenningshlutafélag landsins og enn í dag eru hluthafar þess um 25 þúsund talsins. Þeir stærstu eru fyrirtæki í eigu Magnúsar Þorsteinssonar og Björgólfs Guðmundssonar og fara þau með um tvo þriðju hlutafjár.

Tveir nýir menn voru kjörnir í stjórn í morgun, þeir Sindri Sindrason og Þór Kristjánsson en aðrir í stjórn eru Magnús Þorsteinsson, formaður, Gunnar M. Björgvinsson og Eggert Magnússon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×