Innlent

Hagvöxtur dregst mest saman á Íslandi á milli ára

Búist er við að heldur dragi úr hagvexti í hinum norrænu ríkjum á næsta ári ef undan er skilinn Noregur, en mest dregur úr honum hér á landi. Reiknað er með að hagvöxtur á Norðurlöndunum verði að meðaltali um 3,4 prósent á þessu ári en þrjú prósent árið 2007. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu norrænu efnahagsnefndarinnar, en greint er frá helstu niðurstöðum hennar í vefriti fjármálaráðuneytisins.

Í skýrslunni kemur fram að reiknað sé með eins prósents hagvexti hér á landi á næsta ári á móti ríflega fjögurra prósenta hagvexti í ár og minnkar hagvöxtur hvergi jafnmikið á Norðurlöndum á milli ára. Verðbólga á yfirstandandi ári er langmest á Íslandi eða 7,3 prósent, sem nærri þrefalt meiri verðbólga en í Noregi, sem kemur næst á eftir Íslandi á listanum.

Hins vegar er atvinnuleysi minnst á Íslandi en mest er það í Finnlandi, eða 7,7 prósent á þessu ári. Tölur í skýrslunni sýna auk þess að hagvöxtur á Norðurlöndum hafi á undanförnum árum verið tveimur prósentum hærri en á Evrusvæðinu. Sama gildir um hagvaxtarhorfur á yfirstandandi ári og því næsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×