Ronaldinho og Eiður Smári Guðjohnsen eru á skotskónum hjá Barcelona í Meistaradeildinni í kvöld en liðið hefur 2-0 forystu gegn Bremen á heimavelli sínum og er því í ágætri stöðu til að komast áfram í 16-liða úrslitin. Leikurinn hefur verið mjög skemmtilegur og auk þess að skora átti Eiður Smári sín bestu tilþrif í vetur þegar hann lék á þrjá varnarmenn Bremen en skot hans hafnaði í stönginni.
Barcelona hefur verið mun betri aðilinn í fyrri hálfleiknum og leiðir verðskuldað. Ronaldinho kom heimamönnum á bragðið með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu á 13. mínútu, þegar hann læddi boltanum undir varnarvegg þýska liðsins. Skömmu síðar skoraði Eiður Smári einfalt mark eftir frábært spila Barcelona, en nagar sig eflaust í handarbakið fyrir að nýta ekki færi sem hann fékk eftir mikinn og glæsilegan einleik sinn - en skot hans hafnaði í stönginni eins og áður sagði. Leikurinn er sýndur beint á Sýn en sjónvarpsstöðvar Sýnar eru einnig með beina útsendingu frá leikjum Bayern - Inter og Roma - Valencia, en þessir leikir eru líka sendir út beint á Vef TV hér á Vísi.
Í hinum leiknum í A-riðli hefur Chelsea yfir 1-0 gegn Levski með marki Shevchenko. Spartak Moskva hefur yfir 2-1 úti gegn Sporting. Jafnt er 0-0 hjá Bayern og Inter, Galatasary er að vinna Liverpool 2-1 þar sem Robbie Fowler kom gestunum yfir, PSV er að tapa 3-0 heima gegn Bordeux, Shaktar er yfir 1-0 gegn Olympiakos á útivelli og þá er Roma yfir 1-0 gegn Valencia með marki Panucci á 13. mínútu.