Bandaríski leikmaðurinn Ismail Muhammad er á heimleið eftir að hafa spilað aðeins sex leiki með Keflavík. Keflavík hafði aðeins unnið 2 af þessum 6 leikjum og Muhammad var með 17,0 stig og 6,3 fráköst að meðaltali í fjórum leikjum sínum í Iceland Express-deildinni.
Ismail hafði hins vegar aðeins gefið samtals 6 stoðsendingar í þessum fjórum leikjum, á móti 59 skotum og náði því greinilega ekki að gera aðra leikmenn liðsins betri í kringum sig. Í undanúrslitaleiknum gegn Hamar/Selfoss á sunnudagskvöldið skoraði hann hins vegar aðeins tvö stig á síðustu 15 mínútum leiksins. Á sama leikkafla vann Hamars/Selfoss-liðið upp 16 stiga forskot Keflvíkinga og tryggði sér sæti í bikarúrslitunum.
Leikmannamál Keflavíkurliðanna hafa reynt á stjórnarmenn í vetur. Karlaliðið hefur látið fjóra erlenda leikmenn fara og eru á leiðinni að fá sinn sjötta erlenda leikmann og á dögunum kom í ljós að Kesha Watson væri á leið heim í aðgerð og að kvennaliðið þyrfti þar með sinn þriðja bandaríska leikmann.
Þegar nýju leikmennirnir lenda í Keflavík verður heildarfjöldi atvinnumanna Keflavíkur kominn upp í níu leikmenn á þessum fjórum mánuðum sem eru búnir af tímabilinu. - óój
Gengi Keflavíkur með erlenda leikmenn:
Bandaríkjamenn:
Jermaine Williams* 4 sigrar -1 (80%)
Tim Ellis* 8-2 töp (80%)
Ismail Muhammad* 2-4 (33%)
Bosmann-leikmenn:
Thomas Soltau* 11-2 (85%)
Sebastian Hermanier 2-3 (40%)
* farnir frá liðinu