Körfubolti

„Hættum að spila okkar leik“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar.
Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar. Vísir/Hulda Margrét

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar, var eðlilega svekktur eftir þriggja stiga tap liðsins gegn KR í framlengdum leik í Bónus-deild karla í körfubolta í kvöld.

Þórsarar voru mest 19 stigum yfir í 4. leikhluta, en köstuðu forystunni frá sér og þurftu að lokum að sætta sig við tap. Lokatölur 123-126 eftir framlengdan leik.

„Ef maður ætlar að læra eitthvað af þessu þá er það að maður á aldrei að hætta að spila,“ sagði Lárus í leikslok.

„Mér fannst við bara hætta að spila okkar leik. Við erum að labba upp með boltann og spila löturhægt. Þá verður sóknin hjá okkur smá frosin. Svo setja þeir tvo þrista og minnka þetta niður og allt í einu er þetta ekki lengur óyfirstíganlegt fyrir þá. Mér fannst við bara vera dottnir alveg út úr takti og þetta er auðvitað alveg gríðarlega svekkjandi tap. Stórt tap fyrir okkur.“

Hann segir að hans menn hafi mögulega haldið að sigurinn væri í höfn.

„Já ír rauninni. Við ætluðum bara að verja forskotið, það er ekkert flóknara en það.“

Hann segir þó ekki hafa vantað upp á að hans menn hafi verið að leggja sig fram þegar illa gekk.

„Leikmenn voru alveg að leggja sig fram. En við bara hættum að spila okkar leik. Það er kannski bara frekar það. Við byrjum að spila mjög hægt sóknarlega og þeir ganga á lagið. Við vorum kannski að fara aðeins of mikið í einstaklingsframtak og þeir stela af okkur einhverjum boltum og skora auðveld hraðaupphlaupsstig. Mér fannst leikurinn snúast við eftir fyrri hálfleik þar sem við vorum að skora mikið úr hraðaupphlaupum, en í seinni hálfleik voru þeir að skora mikið úr hraðaupphlaupum.“

Eins og Lárus segir þá var þetta stórt tap fyrir Þór í kvöld. Sigur hefði komið liðinu tveimur stigum frá úrslitakeppnissæti, en tapið þýðir að liðið er nú aðeins tveimur stigum fyrir ofan fallsvæðið.

„Þetta var kannski leikurinn til að við gætum allavega nálgast KR. Við hefðum verið bara tveimur stigum á eftir þeim, en núna erum við sex stigum á eftir þeim og þeir eiga innbyrðis á okkur þannig það verður allavega mjög erfitt að ná þeim.“

Þór mætir Val í næstu umferð og Lárus segir að hans menn þurfi að mæta með betra hugarfar í þann leik en þeir voru með undir lok leiks í kvöld.

„Það er náttúrulega bara annar leikur og önnur barátta. Þessi leikur er búinn og við þurfum ekkert einhvern viðsnúning. Kannski þurfum við bara að halda áfram að spila ef við verðum komnir 20 stigum yfir,“ sagði Lárus að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×