Haukar og ÍS mætast í dag í oddaleik í undanúrslitum Iceland Express-deildar kvenna og hefst leikurinn klukkan 16.00 á Ásvöllum. Þessi lið hafa spilað fimm sinnum upp á líf og dauða í keppnum undanfarin tvö tímabil, það er hafa mæst í leik þar sem sigurvegarinn komst áfram en tapliðið var úr leik. Það lið sem hefur unnið viðureignina hefur síðan farið alla leið og unnið titilinn.
Í fyrravetur sló ÍS lið Haukanna út úr bikarkeppninni með 63-32 sigri í Kennaraháskólanum en Haukarnir unnu oddaleik liðanna í úrslitakeppninni 91-77 en hann fór fram á Ásvöllum eins og sá í dag. Í vetur vann Haukaliðið undanúrslitaleik liðanna, 80-42, í Powerade-bikarnum í Höllinni, leik liðanna í meistarakeppninni í október og sló ÍS síðan út úr átta liða úrslitum bikarsins með 79-44 sigri í Kennaraháskólanum.