Íbúðalánasjóður sinnir ekki hlutverki félagslegs sjóðs fyrir þá sem eru að kaupa í fyrsta sinn á höfuðborgarsvæðinu. Þvert á móti nýtist hann helst fólki sem á mikið eigið fé til húsnæðiskaupa.
Þetta er meðal þeirra fullyrðinga sem Magnús Árni Skúlason, framkvæmdastjóri og eigandi ráðgjafafyrirtækisins Reykjavík Economics, mun færa rök fyrir í hádegisfyrirlestri í Háskóla Íslands í dag.
Í fyrirlestri sínum mun Magnús fjalla um formgerð íslenska íbúðalánakerfisins og hvernig markaðurinn hefur þróast frá því að bankarnir hófu innreið sína á markaðinn í samkeppni við Íbúðalánasjóð árið 2004.
Magnús mun meðal annars fara yfir framboð nýbygginga og þær lýðfræðilegu breytingar sem áttu sér stað hér á landi og komu í veg fyrir að fasteignaverð féll, eins og það hefði í raun átt að gera. „Árið 2004 voru þrjú þúsund íbúðir í byggingu og allt stefndi í offramboð. Það varð hins vegar ekki því það komu svo margir innflytjendur inn á höfuðborgarsvæðið en ekki einungis á Austurland, eins og alltaf var talað um," segir Magnús.
Fyrirlestur Magnúsar byggir á erindi sem hann flutti fyrir alþjóðleg samtök veðlánahafa í Evrópu (European Mortage Federation) í vor. Hann hefst klukkan 12.15 í sal 101 í Odda og er öllum opinn. - hhs