Baugur Group er sagt koma sterklega til greina sem einn af hugsanlegum kaupendum á bandarísku lúxusversluninni Saks en breska blaðið Times taldi í gær líkur á að félagið myndi gera tilboð upp á þrjá milljarða dala í keðjuna á næstunni. Þetta jafngildir 180 milljörðum íslenskra króna.
Á meðal þeirra sem sagðir eru koma að kaupum Baugs er skoski auðkýfingurinn sir Tom Hunter, sem kom, ásamt fleirum, að kaupum Baugs á bresku verslanakeðjunni House of Fraser seint á síðasta ári. Baugur og Hunter hafa átt talsverð önnur viðskipti í gegnum tíðina.
Blaðið segir sömuleiðis að Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs, og Don McCarthy, stjórnarmaður í félaginu, hafi fundað með forráðamönnum Saks. Bandaríska dagblaðið New York Post segir hins vegar líkur á að ekkert verði af tilboði í verslunina fyrr en í fyrsta lagi í byrjun næsta árs.
Baugur á rúman átta prósenta hlut í Saks, sem rekur 54 verslanir víðs vegar í Bandaríkjunum. Gengi bréfa í versluninni lækkaði um 1,9 prósent á fjármálamarkaði vestanhafs síðdegis í gær og stóð í tæpum 20 dölum á hlut. - jab