Tveir leikir fóru fram í deildarkeppninni í NBA í nótt þar sem gamli leðurboltinn var tekinn formlega í notkun á ný. Kevin Garnett hjá Minnesota Timberwolves var einn þeirra sem gagnrýndu boltann sem notaður var í fyrsta sinn í haust og hann hélt upp á endurkomu gamla boltans með góðum leik.
Minnesota lagði Charlotte 102-96 á útivelli þar sem Kevin Garnett skoraði 32 stig og hirti 14 fráköst, en Matt Carroll skoraði 23 stig fyrir Charlotte. Þá afstýrði Boston sjöunda tapi sínu í röð með góðum útisigri á Portland 89-81 þar sem Tony Allen skoraði 22 stig fyrir Boston en Brandon Roy skoraði 18 fyrir Portland.
Fjöldi leikja verður á dagskrá í kvöld en þar ber hæst stórleikur Chicago Bulls og Phoenix Suns sem sýndur verður beint á NBA TV á Fjölvarpinu klukkan 1:30 eftir miðnætti.