Fótbolti

Eggert Magnússon: Áform Platini eru óraunhæf

Eggert Magnússon og Michael Platini svara spurningum fréttamanna á ársþingi UEFA í síðustu viku.
Eggert Magnússon og Michael Platini svara spurningum fréttamanna á ársþingi UEFA í síðustu viku. MYND/Getty

Eggert Magnússon, fyrrum meðlimur í framkvæmdastjórn UEFA, segir að áform Michael Platini um að fækka liðum frá stærstu deildum Evrópu sem eiga gjaldgengt í Meistaradeild Evrópu vera óraunhæf. Platini var í síðustu viku kosinn nýr forseti UEFA og hafði hann boðað róttækar breytingar á fyrirkomulagi Meistaradeildarinnar.

Eggert var í viðtali við Independent á Bretlandi um helgina þar sem hann var spurður um fyrirætlanir Platini, en hann hafði lýst því yfir að fækka liðum frá Englandi, Spáni og Ítalíu í Meistaradeildinni úr fjórum niður í þrjú - ef hann næði kjöri. Platini fékk 27 atkvæði í kjörinu og tekur við hásætinu af Lennart Johansson, sem hlaut 23 atkvæði.

"Ég þekki Michael mjög vel. Hann mun hugsanlega gera einverjar breytingar en þær verða ekki miklar. Hann veit að hann getur ekki lokað á stóru félögin í Evrópu. Það eru of miklir peningar í spilunum til þess," sagði Eggert við Independent.

"Ég held að Michael haft sagt þetta fyrir kjörið vegna þess að hann er unnandi fótboltans og vill hans veg sem mestan. Hann talaði frá hjartanu þegar hann boðaði þessar breytingar. En þetta eru ekki raunhæfar breytingar og Michael er nógu snjall til að gera sér grein fyrir því sjálfur. Það er ómögulegt að framkvæma þessar breytingar," sagði Eggert jafnframt.

Sem kunnugt er var Eggert ekki endurkjörinn í hina valdamiklu framkvæmdastjórn UEFA og segir hann í viðtalinu við Independent að það hafi verið vegna þess að hann sé orðinn stjórnarmaður hjá félagsliði. Þá sagði Eggert að það hefði verið kominn tími á breytingar innan UEFA. "Lennart var mjög góður forseti, í raun frábær forseti. En það var kominn tími til að gera breytingar," segir Eggert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×