Joan Laporta, forseti Barcelona, segist elska Steven Gerrard fyrirliða Liverpool og segir hann táknmynd félagsins. Barcelona tekur á móti Liverpool á Nou Camp á miðvikudaginn í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Leikurinn verður að sjálfssögðu sýndur beint á Sýn.
"Ég elska Steven Gerrard og hann er táknmynd Liverpool út á við. Ég horfði nýlega aftur á leik Liverpool og AC Milan um Evrópubikarinn og það var sérstaklega gaman að fylgjast með Gerrard í þeim leik. Hann var svo ástríðufullur og fagnaði ákaft með stuðningsmönnum liðsins eftir að sigurinn var í höfn. Þetta hreyfði sannarlega við mér og mér finnst Gerrard vera það sama hjá Liverpool og Carles Puyol er hjá okkur. Sannur fyrirliði sem gefur allt sitt fyrir liðið," sagði Laporta í viðtali á heimasíðu Liverpool.