Lokaumferðin í Iceland Express deild karla í körfubolta fór fram í kvöld. Þór frá Þorlákshöfn féll í 1. deild ásamt Haukum eftir að liðið tapaði 91-86 á heimavelli fyrir Íslandsmeisturum Njarðvíkur í kvöld. Á sama tíma unnu Fjölnismenn góðan sigur á Tindastól á heimavelli 94-87. Liðin urðu jöfn að stigum en Fjölnir vann innbyrðisviðureignir liðanna í vetur.
Njarðvíkingar sigruðu með glæsibrag í deildinni og unnu 15. sigurinn í röð í vetur þegar þeir lögðu Þórsara. Grindvíkingar náðu að skjótast upp fyrir granna sína í Keflavík í töflunni þegar þeir skelltu KR á útivelli 96-92. Þetta var fyrsta tap KR á heimavelli í átta leikjum.
Á sama tíma tapaði Keflavík fyrir Snæfelli á heimavelli 86-81 og var þetta í fyrsta skipti sem Snæfell vinnur leik í Keflavík. KR nær öðru sætinu í deildinni þrátt fyrir tapið gegn Grindavík, Snæfell er í þriðja og Skallagrímur í því fjórða.
Skallagrímur steinlá á heimavelli fyrir ÍR í kvöld 102-87 og botnlið Hauka tapaði fyrir Hamar/Selfoss 92-72. Smelltu hér til að sjá lokastöðuna í deildinni.
Liðin sem mætast í úrslitakeppninni eru því sem hér segir, en hún hefst þann 15. mars:
Njarðvík - Hamar/Selfoss
KR - ÍR
Snæfell - Keflavík
Skallagrímur Grindavík
Einn leikur var í Iceland Express deild kvenna í kvöld þar sem deildarmeistarar Hauka lögðu Grindavík 89-73. Haukar mæta ÍS í úrslitakeppninni og Keflavík og Grindavík mætast í hinu undanúrslitaeinvíginu.