Íslandsmeistarar Njarðvíkur eru komnir í góða stöðu í undanúrslitaeinvíginu gegn Grindavík eftir 89-87 sigur í þriðja leik liðanna í kvöld. Njarðvíkingar voru skrefinu á undan allan leikinn og geta tryggt sér sæti í úrslitaleiknum með sigri í fjórða leiknum í Grindavík á mánudaginn.
Öfugt við fyrri leikina tvo þar sem miklar sveiflur voru í stigaskorun, var leikurinn í kvöld nokkuð jafn. Njarðvíkingar höfðu sem fyrr segir frumkvæðið en náðu aldrei að komast nema um 10 stigum yfir. Grindvíkingar náðu tvisvar að komast fast á hæla heimamanna í síðari hálfleik - síðast þegar nokkrar sekúndur lifðu leiks- en þeim tókst ekki að nýta sér gott áhlaup og komast yfir.
Hvorugt lið var að spila sérstaklega vel í leiknum og gestirnir ef til vill klaufar að nýta sér ekki þá staðreynd að Íslandsmeistararnir voru ekki að spila á pari á heimavelli sínum í kvöld. Nú eru Grindvíkingar hinsvegar komnir upp að vegg og þurfa sigur á heimavelli sínum á mánudag eða þeir eru komnir í sumarfrí.
Stigahæstu menn:
Grindavík: Páll Axel 28, Griffin 20, Darboe 14, Þorleifur 11, Páll Kristins 10
Njarðvík: Brenton 20, Jóhann 16, Ivey 15, Beljanski 14, Guðmundur 11.