Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir aðild sína að Baugsmálinu. Þá var Tryggvi Jónsson, fyrrverandi forstjóri félagsins, dæmdur í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir aðild sína að málinu. Ákærulið á hendur Jóni Gerald Sullenberger var vísað frá.
Jón Ásgeir og Tryggvi eru dæmdir sekir fyrir bókhaldsbrot í tengslum við hinn margumrædda kreditreikning frá Nordica.
Þeir eru sagðir hafa látið færa tilhæfulausan kreditreikning frá Nordica til tekna í bókhaldi Baugs. Þá var Tryggvi sakfelldur fyrir að hafa látið færa tilhæfulausa kredityfirlýsingu frá færeyska félaginu SMS í bókhaldið en Jón Ásgeir sýknaður í þeim lið, þeim 16. Enn fremur var Tryggi sakfelldur samkvæmt ákærulið 17 sem laut að tilhæfulausri bókhaldsfærslu um sölu á hlutabréfum til Kaupþings.
Dómarnir yfir Jóni Ásgeiri og Tryggva eru skilorðsbundnir til tveggja ára.
Alls var ákært í 18 liðum í endurákærunni sem Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari í málinu, gaf út eftir að 32 ákæruliðum í upprunalegri ákæru í Baugsmálinu var vísað frá dómi. Ákæruliðirnir voru upphaflega 19 en einum þeirra, sem laut að meintu auðgunarbroti Jóns Ásgeirs, var vísað frá dómi.
Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, var ákærður í 17 af 18 ákæruliðanna. Ákæruliðir 2-9 lutu að meintum ólögmætum lánveitingum frá Baugi til félaganna Gaums og Fjárfars og Kristínar Jóhannesdóttur en Jóni Ásgeiri var gefið að sök að hafa hlutast til um lánin á þeim tíma sem Baugur var almenningshlutafélag, nánar tiltekið á árunum 1999-2001. Þeim var öllum vísað frá dómi í morgun á þeim grundvelli að refsiheimild skorti í hlutafélagalögum til þess að hægt væri að dæma einstakling fyrir brot af þessu tagi.
Auk þess var 10. ákærulið, þar sem Jóni Ásgeiri var gefið að sök að hafa látið rangfæra bókhald Baugs í tengslum við fyrirtækið Baugur.net, vísað frá.
Sama má segja um 19. ákærulið þar sem Tryggva var gefinn að sök fjárdráttur með því að hafa látið Baug greiða fyrir persónuleg útgjöld sem hann stofnaði til með kreditkorti í reikning Nordica. Honum var vísað frá á þeim grundvelli að ákæran væri ekki nógu skýr, þ.e. að þeir kreditkortareikningar sem ákært var fyrir hefðu ekki verið sundurliðaðir í ákærunni og því hefði Tryggvi ekki getað tekið afstöðu til hverrar greiðslu með kortinu.
Sakfellt fyrir tilhæfulausan kreditreikning
Í ákæruliðum 11-14 voru Jóni Ásgeiri og Tryggva gefin að sök bókhaldsbrot tengd Baugi. Jón Ásgeir var sýknaður af öllum ákæruliðum en Tryggvi dæmdur fyrir bókhaldsbrot samkvæmt 14. ákærulið sem laut að sölu á hlutabréfum í Arcadia til Kaupþings sem ekki áttu sér stoð í raunveruleikanum.
Þeir voru svo báðir báðir sakfelldir fyrir bókhaldsbrot samkvæmt 15. ákærulið með því að hafa látið færa tilhæfulausan kreditreikning frá Nordica upp á tæpar 62 milljónir til tekna í bókhaldi Baugs sumarið 2001.
Jón Gerald var einnig ákærður í þessum ákærulið, fyrir að hafa útbúið kreditreikninginn, en með vísan til þess að hann hafi ekki notið þeirra réttinda sakbornings við lögreglurannsókn málsins sem lagaákvæði segja til um var ákærunni á hendur honum vísað frá.
Tryggi sakfelldur í fjórum ákæruliðum
Þá var Tryggvi sakfelldur fyrir að hafa látið færa tilhæfulausa kredityfirlýsingu frá færeyska félaginu SMS í bókhald Baugs sama sumar en Jón Ásgeir sýknaður í þeim lið, þeim 16.
Enn fremur var Tryggi sakfelldur samkvæmt 17. ákærulið sem laut að tilhæfulausri bókhaldsfærslu um sölu á hlutabréfum til Kaupþings upp á 330 mlljónir króna. Alls var Tryggvi sakfelldur í fjórum ákæruliðum.
Enn fremur var Jóni Ásgeiri og Tryggva gefið að sök að hafa dregið Fjárfestingarfélaginu Gaumi um 32 milljónir króna frá Baugi til þess að fjármagna eignarhlutdeild og kostnað Gaums vegna skemmtibátsins Thee Viking á Flórída.
Þeir voru sýknaðir af þeim ákærulið þar sem að fjármunirnir sem um ræðir runnu ekki til Gaums heldur Nordica. Segir dómurinn að ekki megi dæma menn fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir og þar sem ósannað sé að ákærðu hafi dregið Gaumi fé, eins og þeir eru ákærðir fyrir, verði þeir sýknaðir af þessum lið ákærunnar.
Dómarnir yfir Jóni Ásgeiri og Tryggva eru skilorðsbundnir til tveggja ára. Þá úrskurðaði dómurinn að málsvarnarlaun skipaðs verjanda Jóns Ásgeirs, 15,3 milljónir króna, skyldu greiðast að 9/10 úr ríkissjóði en Jón Ásgeir 1/10.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda Tryggva, 11,9 milljónir, greiðast að 4/5 úr ríkissjóði en 1/5 af Tryggva. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda Jóns Geralds, 7,9 milljónir króna, greiðast alfarið úr ríkissjóði.
Þá skulu Jón Ásgeir og Tryggvi greiða fimm milljónir í sakarkostnað til ríkissjóðs. Kostnaður Jóns Ásgeirs upp á tæpar 26 milljónir er að 1/10 hluta greiddur af honum en að 9/10 hlutum skal hann greiddur úr ríkissjóði.
Dóminn í heild sinni má sjá hér að neðan.