Harður árekstur varð á áttunda tímanum í kvöld á gatnamótum Hallsvegar og Strandvegar í Reykjavík. Tveir bílar lentu í árekstri og voru fjórir í öðrum bílnum. Ekki er vitað hversu margir farþegar voru í hinum bílnum. Enginn slasaðist alvarlega þó svo að fjarlægja þurfi báða bílana með krana. Eftir áreksturinn veittust mennirnir fjórir, sem voru allir ölvaðir og á tvítugsaldri, að ökumanni hins bílsins. Lögregla var kölluð á staðinn og mennirnir handteknir.
Eftir að sjúkraflutningamenn höfðu skoðað þá og komið hafði í ljós að meiðsli þeirra voru ekki alvarlega var ákveðið að færa þá í fangageymslur svo þeir gætu sofið úr sér. Enn hefur ekki tekist að ákvarða hver af fjórmenningunum var undir stýri þegar áreksturinn átti sér stað. Einnig er óvíst um tildrög slyssins.