Snæfellingar fögnuðu í dag sigri í Powerade bikarnum í karlaflokki með sigri á KR 72-65 í miklum baráttuleik í Laugardalshöll. Snæfell lenti undir 2-0 í leiknum en hafði undirtökin eftir það og vann verðskuldaðan sigur.
KR-ingarnir náðu að jafna leikinn þegar nokkrar mínútur voru eftir en ódýrar villur og tæknivillur gerðu vonir liðsins að engu í lokin. Mikill hiti var í mönnum í leiknum og höfðu dómararnir nóg að gera við að halda tökum á leikmönnum.
Staðan í hálfleik var 32-27 fyrir Snæfell og eins og tölurnar gefa til kynna var hart barist í Höllinni í dag. KR-ingar tefldu fram nýjum erlendum leikstjórnanda í leiknum, hinum 19 ára gamla Ernestas Ezerskis frá liði Ritas í Litháen.
Hólmarar fögnuðu því sigrinum og eru vel að honum komnir eftir að hafa lagt sterk lið eins og Njarðvík og KR á leið sinni að titlinum.
Tölfræði úr leiknum kemur síðar.