Körfubolti

Jón Arnór magnaður gegn Evrópumeisturunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jón Arnór skoraði 25 stig í kvöld.
Jón Arnór skoraði 25 stig í kvöld. Nordic Photos / AFP

Jón Arnór Stefánsson var stigahæsti leikmaður Lottomatica Roma gegn Panathinaikos í Euroleague-keppninni í körfubolta í kvöld.

Leikið var í Grikklandi þar sem heimamenn fóru með nauman sigur af hólmi, 86-83. Roko-Leni Ukic, leikmaður Roma, hitti reyndar úr þriggja stiga skoti á lokasekúndu leiksins en karfan var dæmd af vegna skrefs. Hefði hún gilt hefði leikurinn verið framlengdur.

Jón Arnór skoraði 25 stig, hitti úr sex af fimmtán skotum sínum - þar af fimm þriggja stiga skotum. Hann tók þrjú fráköst, stal boltanum þrisvar og gaf tvær stoðsendingar. Hann var þar að auki stigahæsti leikmaður leiksins.

Hann hefur aldrei skorað fleiri stig í leik með Roma og var einn besti maður vallarins.

Euroleague-keppninni má líkja við Meistaradeild Evrópu í fótbolta og handbolta en bestu félagslið Evrópu keppa í henni ár hvert. Panathinaikos eru ríkjandi meistarar í keppninni en í vor vann liðið CSKA Moskvu í úrslitaleik í Aþenu, 93-91. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×