Sport

Hjólreiðakappi íþróttamaður ársins í Bretlandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Chris Hoy og Lewis Hamilton ræða saman í gær en til stóð að þeir myndu mætast í Race of Champions í gær.
Chris Hoy og Lewis Hamilton ræða saman í gær en til stóð að þeir myndu mætast í Race of Champions í gær. Nordic Photos / Getty Images

Breska ríkisútvarpið, BBC, útnefndi hjólreiðakappann og ólympíumeistarann Chris Hoy íþróttamann ársins í Bretlandi.

Lewis Hamilton, Formúlu 1-meistari og sundkonan Rebecca Adlington voru einnig tilnefnd.

Hoy vann þrenn gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking í sumar og er fyrsti Bretinn sem vinnur þrjú gull á sömu leikunum síðan 1908. Hann varð fyrsti hjólreiðakappinn til að hljóta útnefninguna síðan 1965.

„Það var mjög sérstakt að vinna þessi verðlaun þar sem breskir íþróttamenn hafa náð ótrúlega góðum árangri á þessu ári," sagði Hoy. „Ég átti ekki von á þessu."

Hamilton varð í öðru sæti í kjörinu annað árið í röð en það kom honum ekki á óvart. „Þetta er ólympíuár og átti ég því von á að keppandi af Ólympíuleikunum myndi bera sigur úr býtum. Þetta er frábært íþróttafólk og er ég stoltur af því að mega standa við hlið þeirra við þetta tilefni."

Adlington er ekki nema nítján ára gömul en hún vann tvenn gullverðlaun á leikunum í sumar. Hún varð þar með fyrsti Bretinn síðan 1988 til að vinna gullverðlaun í sundi á Ólympíuleikunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×