Körfubolti

Enn bið eftir fyrsta leik hjá Loga - óvissa um stöðu Saint Etienne

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Gunnarsson bíður enn eftir fyrsta leiknum með Saint Etienne.
Logi Gunnarsson bíður enn eftir fyrsta leiknum með Saint Etienne. Mynd/Daníel

Logi Gunnarsson lék ekki fyrsta leik sinn með Saint Etienne í frönsku C-deildinni um helgina eins og áætlað var. Mál Saint Etienne er komið í algjöran hnút á ný eftir að 15 af 16 liðum hafa neitað að spila á móti liðinu. Það varð því ekkert að leik Angers BC 49 og Saint Etienne á laugardaginn.

Saint Etienne var dæmt niður í C-deildina en forráðamenn annara liða eru ekki sáttir við að félagið hafi getað sparað sér tveggja mánaða launakostnað leikmanna með að fara ekki að spila fyrstu leiki sína fyrr en í 3. umferð.

Mál Saint Etienne var enn í gangi hjá franska sambandinu þegar franska C-deildin hófst með sautján liðum en það virtist vera komin niðurstaða í málið þegar liðið var sett í NM1-deildina. Það var þó aðeins skammgóður vermir og nú reynir á franska körfuboltasambandið að leysa þennan hnút sem fyrst.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×