Körfubolti

Dugnaður Jóns Arnórs hjálpaði mikið til - má spila á ný

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Mynd/ÓskarÓ
Jón Arnór Stefánsson hefur fengið leyfi frá læknum CB Granada til að fara að spila á ný með liðinu í spænsku úrvalsdeildinni en hann meiddist illa á baki í æfingaleik á móti rússneska liðinu Khimki 1. október.

Meiðsli Jóns Arnórs voru það alvarleg að búist var við að hann yrði frá í fjóra mánuði en Jón Arnór ætlaði sér alltaf að koma til baka fyrir jól. Jón Arnór lagði mikið á sig til að komast aftur af stað og hrósað fyrir dugnað á heimasíðu félagsins en þar er sagt að vinnusemi Jóns sé aðalatriðið fyrir því að hann er kominn aftur af stað eftir rétt rúma tvo mánuði.

Jón Arnór var á sjúkrahúsi til 6. október og fór strax að vinna í að byggja sig upp á nýjan leik þegar hann kom heim. Hann hóf síðan æfingar 16. nóvember og fór síðan að æfa að hluta með liðinu 1. desember. Jón Arnór hefur síðan tekið þátt í æfingunum að fullu í þessari viku.

CB Granada mætir Estudiantes á útivelli á morgun og verður Jón Arnór væntanlega í leikmannahópi liðsins. Estudiantes og CB Granada eru með jafnmörg stig en Granada hefur dregist niður í fallbaráttuna á þessu tímabili og situr sem stendur í síðasta örugga sæti deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×